Sýning á ljósmyndum
24 apríl, 2013 eftir ek
Einn sá þáttur sem tilheyrir bílahobbýinu er ljósmyndun. Í hvert sinn sem flottur bíll fer út úr húsi, er mættur ljósmyndari að fanga gripinn með linsunni. Sumir mynda eingöngu fyrir sjálfa sig, á meðan aðrir deila myndum sínum á bílasíðum eins og Krúser-síðunni. Þar eru nú saman komnar rúmlega sex þúsund myndir sem gaman er að skoða.
En það er líka gaman að skoða útprentaðar myndir settar í ramma og hengdar upp á vegg.
Og þá kemur fréttin: Til þess að auka veg þessa þáttar, höfum við í Krúser komið fyrir fjölda ljósmynda sem við ætlum að frumsýna á morgun (sumardaginn fyrsta).
Hugmyndin er að þær myndir sem nú eru þegar komnar á vegginn fái að standa þar í einn mánuð. Að mánuði liðnum mun annar ljósmyndari fá aðgang að veggnum, og svo sá næsti osfrv.
Sá ljósmyndari sem hefur leikinn er Guðfinnur Eiríksson. Hans þema að þessu sinni eru svart/hvítar myndir sem fanga stemmningu meðal félaga í Krúser og gera lífið skemmtilegt. Hægt verður að panta sér mynd/myndir á vægu verði.
Nú skorum við á alla þá sem hafa verið duglegir með myndavélina á Krúser-atburðum að taka þátt í leiknum, með því að skrá sig til þátttöku. Má þar m.a. nefna: Björn Guðmundsson, Björn og Birki Kristinssyni, Elvu Hrönn, Jóhann Vilhjálmsson og fleiri og fleiri. Endilega skrá sig á vegginn. 🙂